Lífeyrissjóðir taka yfir rekstur Jóakims

Reiknistofa lífeyrissjóða (RL) hyggst taka yfir rekstur á hugbúnaðarkerfinu Jóakim og hefur starfsfólk fyrirtækisins Init verið upplýst um þá niðurstöðu. Er þetta gert í framhaldi þess að samningi RL og Init var sagt upp í júnímánuði. Í vinnunni fram undan verður lögð áhersla á að tryggja áfram öruggan rekstur hugbúnaðarkerfisins Jóakim og öryggi þeirra gagna sem kerfið heldur utan um. Samhliða er stefnt að því að draga úr kostnaði við rekstur á Jóakim kerfinu til lengri tíma meðal annars með því að einfalda rekstrarfyrirkomulag.

Á næstu mánuðum verður unnið að yfirfærslu rekstrarins með starfsfólki Inits sem hafa síðustu árin séð um rekstur og þróun Jóakim tölvukerfisins. Mikilvægt er að tryggja áframhaldandi aðkomu þeirra að rekstrinum, enda býr starfsfólkið yfir yfirgripsmikilli þekkingu á Jóakim kerfinu sem og lífeyriskerfinu í heild sinni.

Áhersla á gagna- og rekstraröryggi

Yfirtakan er aðeins eitt skref í umfangsmikilli vinnu sem unnin hefur verið innan Reiknistofu lífeyrissjóða og þeirra lífeyrissjóða sem aðild eiga að Jóakim kerfinu, en aukinn kraftur var settur í verkefnið eftir að upp komst um brot Inits á samningi fyrirtækisins við RL sem voru síðar staðfest í óháðri úttekt. Þar hafa nánast öll atriði sem snúa að rekstri og þróun kerfisins ásamt samningum við Init verið teknir til skoðunar. Sú vinna mun halda áfram næstu mánuði og misseri og verða sjóðfélagar upplýstir um þróun einstakra mála eftir því sem efni og aðstæður leyfa.

 

Til skýringar

Reiknistofa lífeyrissjóða er í eigu tíu lífeyrissjóða og nota átta þeirra hugbúnaðarkerfið Jóakim til að halda utan um réttindi sjóðfélaga og eignasafn sjóðanna.