Hagnýting gervigreindar hjá RL
Undanfarið hefur gervigreind mikið verið í umræðunni í samfélaginu hér heima jafnt sem erlendis. Ljóst er að þessi nýja tækni býður upp á mikla og að mörgu leyti ófyrirséða möguleika. RL hefur nú gert samning við APRÓ um aðgang að gervigreindarhraðli þeirra. Um sérsniðna þjónustu er að ræða þar sem gagnaöryggi og praktísk nálgun eru í fyrirrúmi. RL sér möguleika í hagnýtingu gervigreindar við þróun lausna sinna, við ráðgjöf til viðskiptavina og jafnvel við beina notkun notenda á Jóakim kerfinu. Starfsfólk hjá RL hefur sótt námskeið í gervigreind og vinnur nú að hagnýtingu hennar meðfram öðrum verkefnum.
Þróun á vefþjónustulagi
RL hefur nú stigið fyrstu skrefin í því að færa vefþjónustulag sitt í betri tækni, en ætlunin er að þróa vefþjónustur til framtíðar í JAVA og er samhliða unnið að innleiðingu nýrrar og öruggari tækni við auðkenningu vegna notkunar á vefþjónustum. RL vill bæði endurbæta og útvíkka vefþjónustulag kerfa sinna, svo viðskiptavinir hafi meiri möguleika á sveigjanlegum lausnum til framtíðar.
Þjónustusamningar við viðskiptavini
Vegna ákvæða í þjónustusamningum RL við viðskiptavini um endurskoðun á tveggja ára fresti, þá munu þjónustusamningar verða endurnýjaðir fyrir lok árs. RL vinnur nú að því með lögmanni að uppfæra samningana til samræmis við nýjar DORA reglur sem verða innleiddar á Íslandi. Nánari upplýsingar verða sendar út um þetta síðar árinu.
Samfelld öryggisvöktun
RL hefur nýlega samið við Syndis um svokallaða SOC þjónustu, en SOC stendur fyrir Security Operation Center, sem þýða má lauslega sem öryggisstjórnstöð eða öryggisvaktstöð. Þjónustan verður innleidd á næstunni. Í þjónustunni felst 24/7 öryggisvöktun á upplýsingakerfum, lausnum og innviðum RL, með sértækri greiningu á og viðbrögðum í rauntíma við atvikum, sem upp kunna að koma. Þjónustan er mönnuð færustu sérfræðingum í netöryggi (e. “3rd level”) og er vaktin alltaf mönnuð allan sólarhringinn.
Auknar varnir á ytri kerfum RL
RL hefur einnig gert samning um þjónustu Aftra, sem snýst um að verja sérstaklega ytri mörk kerfa RL, sem oft er kallaður árásarflötur. Öryggisvandamál í ytri mörkum kerfa eru yfirleitt það sem óvinveittir hakkarar nýta sér við innbrot í tölvukerfi. Þjónustan felur í sér ýmsa þætti sem eiga það sameiginlegt að greina vandamál og stuðla að auknu heildaröryggi kerfi. Er óhætt að segja að öryggi kerfa RL muni stóraukast þegar innleiðingu á bæði SOC og Aftra verður lokið.