Fréttabréf desember 2024

Mikill afsláttur af notkunargjöldum

Um næstu áramót verða tvö og hálft ár liðið frá því RL tók að fullu við þróun, þjónustu og rekstri allra kerfa sinna. Rekstur kerfanna hefur gengið vel og breytt fyrirkomulag hefur einnig skilað töluverðri hagræðingu. RL hefur áður skilað ávinningi af hagræðingu til viðskiptavina sinna og gerir nú enn betur í þeim efnum vegna ársins 2024. Öll notkunargjöld af kerfum RL eru felld niður í bæði nóvember og desember, sem svarar til yfir 16% ársafsláttar, sjá nánar hér. Stefna RL til framtíðar er að hagræði í rekstri skili sér áfram til viðskiptavina.

Framreikningur vegna örorku

Gerðar hafa verið breytingar á kerfinu, sem gera það að verkum að sjóðir geta nú látið framreikningsiðgjald, sem stofnast í úrskurði á örorku, fara inn í sérstaka framreikningsiðgjaldadeild, við hverja mánaðarlega greiðsluvinnslu, og birtist það þá sem iðgjald á yfirliti sjóðfélaga. Þetta dregur meðal annars úr vinnu vegna útreiknings, sem áður þurfti að framkvæma utan kerfisins hjá lífeyrissjóðum, og bætir einnig útreikning á tryggingafræðilegri úttekt.

Þróunarverkefni

Ýmis þróunarverkefni hafa verið unnin undanfarna mánuði sem of langt mál er að telja upp, en þó má nefna að unnar hafa verið töluverðar breytingar í iðgjaldakerfinu og lífeyrisgreiðslukerfinu, auk þess sem verkefni tengd gögnum og vöruhúsamálum hafa fengið mikla athygli. RL á gott samstarf við notendur í gegnum notendahópa, en hlutverk þeirra er að vera vettvangur hugmynda, umræðu og mótunar verkefna fyrir viðkomandi kerfishluta.

Vefmál

RL rekur þrjá gamla vefi: Félagavef, Sjóðfélagavef og Launagreiðendavef. Eins og komið hefur fram áður, þá verður þessum vefjum lokað 1.september 2025. Nánari upplýsingar hafa verið sendar á þá viðskiptavini sem enn eru að nota þessa gömlu vefi, en mikilvægt er að þeir kynni sér málið.

Opnunartími um hátíðarnar

Opnunartími hjá RL um næstkomandi jól og áramót verður sem hér segir:

  • Mánudaginn 23. desember kl. 9-16
  • Föstudaginn 27. desember kl. 9-15
  • Mánudaginn 30. desember kl. 9-16
  • Fimmtudaginn 2. janúar kl. 9-16

 

Starfsfólk RL þakkar fyrir gott samstarf á árinu og hlakkar til áframhaldandi samstarfs á nýju ári.