Fréttabréf ágúst 2025

Handbækur í Þjónustugátt RL

Af ytri vef RL er aðgengi að Þjónustugátt RL, þar sem notendur geta komið á framfæri þjónustubeiðnum og fylgst með framgangi þeirra. RL hefur unnið að því undanfarið að gera notendahandbækur aðgengilegar í Þjónustugáttinni og lauk því verkefni snemma í ágúst. Hægt er að skoða handbækurnar bæði út frá ítarlegri valmynd og einnig með frjálsri textaleit sem er þægileg leið fyrir notendur. RL tekur fegins hendi við öllum ábendingum um það sem betur má fara í handbókunum og vonast jafnframt til að þessar breytingar gagnist notendum vel. Athugið að skrá þarf netfang og stofna lykilorð þegar farið er inn í Þjónustugáttina í fyrsta skipti.

DORA fundur RL í júní

Þann 10. júní í sumar hélt RL kynningu á fjarfundi fyrir notendur og fulltrúa frá viðskiptavinum sínum þar sem kynnt var staða og framvinda hjá RL vegna DORA reglna sem til stendur að taki gildi á Íslandi. Um Evrópureglur er að ræða sem taka í stuttu máli til öryggis- og tæknimála hjá fjármálafyrirtækjum og birgjum þeirra. Vel var mætt á fundinn og áttu velflestir eftirlitsskyldir aðilar í viðskiptum við RL fulltrúa á fundinum. Hægt er að nálgast upptöku frá fundinum hjá RL.

Notendaviðmót Jóakim kerfisins

RL setti nýja útgáfu af notendaviðmóti Jóakim kerfisins upp fyrr í sumar og hefur hún verið aðgengileg notendum, samhliða fyrri útgáfu. Allmargir notendur hafa nú þegar byrjað að nota þessa útgáfu en RL vinnur að því að styðja fleiri notendur til að hefja notkun á henni. RL stefnir að því að gera eldri útgáfuna óvirka fljótlega. Nýja útgáfan er með nokkuð breyttu útliti á fyrstu skjámynd, valmynd og leiðarkerfi. RL hefur þegar hafið undirbúning á næstu útgáfu viðmóts, en áhersla er á því hjá RL að bæta notendaviðmót kerfisins. Allar ábendingar og fyrirspurnir varðandi nýtt notendaviðmót má senda í gegnum Þjónustugátt RL eða með því að senda tölvupóst á adstod@rl.is

Endurnýjun vefja

RL tilkynnti fyrir ári um væntanlega lokun eldri vefja félagsins, en RL rekur þrjá gamla vefi: Félagavef, Sjóðfélagavef og Launagreiðendavef. Stefnt var að lokun vefjanna 1. september. Vel hefur gengið hjá flestum að færa sig í nýtt fyrirkomulag en þó hefur verið ákveðið að hliðra endanlegri dagsetningu inn í haustið. Eldri vefjum viðskiptavina verður lokað jafnóðum og nýir verða teknir í notkun. Eldri eftirstandandi vefjum verður endanlega lokað í árslok.

Flutningur á milli gagnavera

RL rekur Jóakim kerfið í tvöföldu rekstrarumhverfi til að tryggja rekstraröryggi. Kerfin eru öll í hýsingu hjá Sensa, sem er virtur þjónustuaðili á því sviði. Sensa mun flytja annað gagnaver sitt til Akureyrar innan skamms og mun RL þá vera með aðra uppsetningu kerfa sinna þar og hina í Keflavík. Á meðan á flutningi stendur þá verður RL með einfalda uppsetningu í um það bil einn sólarhring. Breytingin sjálf eykur hins vegar heildaröryggi kerfisins til framtíðar og er því jákvæð. Nánari upplýsingar verða sendar þegar nákvæm dagsetning liggur fyrir.