Aðalfundur RL 2024

Aðalfundur RL 2024 fór fram fimmtudaginn 7. mars síðastliðinn.

Jóhann Steinar Jóhannsson stjórnarformaður RL og framkvæmdastjóri Stapa lífeyrissjóðs setti fundinn. Ólafur Sigurðsson framkvæmdastjóri Birtu lífeyrissjóðs var kjörinn fundarstjóri og Margrét Sigurbjörnsdóttir stjórnandi þjónustu og ráðgjafar hjá RL var valin fundarritari. Á fundinn voru mættir fulltrúar yfir 99% hlutafjár í félaginu, flestir á staðnum en sumir voru á fjarfundi. Stjórnarformaður flutti skýrslu stjórnar, síðan kynnti Jón Egilsson framkvæmdastjóri RL ársreikning félagsins fyrir liðið starfsár og eftir það tóku við önnur hefðbundin aðalfundarstörf.

Jóhann Steinar Jóhannsson og Jón L. Árnason framkvæmdastjóri hjá Lífsverk lífeyrissjóði voru endurkjörnir í stjórn en Árni Hrafn Gunnarsson yfirlögfræðingur hjá Gildi lífeyrissjóði gaf ekki kost á sér til endurkjörs. Í hans stað var Skúli Geir Jensson, forstöðumaður upplýsingatækni hjá Gildi lífeyrissjóði, kjörinn í stjórn félagsins. Í varastjórn voru endurkjörnir Ólafur Kristinn Ólafs framkvæmdastjóri lífeyrissjóðs bænda, Ólafur Sigurðsson og Haukur Jónsson framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs Vestmannaeyja.

Síðastu ár hafa verið jafnt annasöm sem árangursrík. Enn liggja þó mörg verkefni fyrir hjá félaginu og er mikill vilji hjá hluthöfum, stjórn og starfsmönnum til að ná enn meiri árangri á næstu misserum. Fjárhagsleg afkoma félagsins er með ágætum þó verð hafi verið lækkuð umtalsvert síðustu misseri og nú síðast um áramót.

Fundarmenn komu á framfæri góðum þökkum til stjórnar og allra starfsmanna félagsins fyrir vel unnin störf á undangengnum misserum.