Hugbúnaðarkerfið Jóakim

Upplýsingakerfið Jóakim er eign RL, en kerfið þjónar helstu þörfum lífeyrissjóða, stéttarfélaga og fleiri aðila. Kerfið sinnir m.a. iðgjaldainnheimtu, verðbréfavörslu, lífeyrisgreiðslum, lánaumsýslu, sjúkrabótum, styrkjum, orlofshúsaleigu og fleira. Kerfið hefur verið í stöðugri þróun, bæði í takt við kröfur viðskiptavina svo og til að notendur kerfisins uppfylli ítrustu kröfur laga og reglugerða.

 

Kerfið skiptist niður í afmarkaðri kerfiseiningar:

  • Lífeyrisgreiðslukerfið sem er sérhannað fyrir útborgun á lífeyri (elli, örorku, maka, barna) og meðhöndlun á útborgunarferlinu
  • Iðgjaldakerfið sem inniheldur innheimtukerfi iðgjalda, réttindabókhald sjóðfélaga og rétthafa ásamt tengingum inn í fjárhagsbókhald
  • Verðbréfakerfi sem heldur utan um skuldabréf, hlutabréf, hlutdeildarsjóði, innlánsreikninga og framvirka samninga í innlendri sem erlendri mynt
  • Félagakerfið sem heldur utan um ýmis konar upplýsingar um félagsmenn stéttarfélaga og launagreiðendur

 

Til viðbótar ofangreindu eru til staðar launagreiðenda-, félaga og sjóðfélagavefir;

  • Launagreiðendavefur er viðbót við iðgjalda- og félagakerfi í Jóakim. Notkun á launagreiðendavef býður upp á einföldun við iðgjaldaskil og þægilegt aðgengi að upplýsingum um eldri færslur.
  • Félagavefur veitir félagsmönnum aðgang að upplýsingum um stöðu þeirra hjá félaginu. Félagsmenn hafa möguleika á að skoða iðgjaldasögu sína, punktastöðu og punktasögu, greiðslusögu vegna bóta og styrkja og úthlutunarsögu vegna orlofshúsa
  • Sjóðfélagavefur veitir sjóðfélögum aðgang að upplýsingum um stöðu þeirra hjá sjóðnum. Sjóðfélagar hafa möguleika á að skoða iðgjaldasögu sína, réttindi, greiðslusögu vegna lífeyrisgreiðslna og yfirlit sjóðfélagalána.

 

Upplýsingakerfið Jóakim byggir á nethögun þar sem vinnsla og gagnagrunnur keyra miðlægt á öflugum miðlurum, sem gerir kerfið auðvelt í rekstri og mjög stækkanlegt. Í miðlægum gagnagrunni kerfisins er almennum upplýsingum eins og þjóðskrá, markaðstölum verðbréfa, gjaldmiðlagengi, vísitölum, vöxtum o.fl. viðhaldið á einum stað og þær eru ávallt aðgengilegar öllum notendum. Allur búnaður er hýstur í vottuðu hýsingarumhverfi.